Star Wars 7 slúður: Ronan, Day-Lewis og Stapleton í prufum

Í gær voru sögusagnir um að leikkonan Saoirse Ronan hefði leikið í prufu fyrir næstu Star Wars mynd staðfestar sem sannar, og í kjölfarið hafa sögur gengið um tvo leikara til viðbótar sem eiga að hafa leikið í prufum fyrir myndina.

ronan

Annar þeirra er Sullivan Stapleton, aðalleikarinn í 300: Rise of an Empire, sem er væntanleg í bíó næsta vor. Hinn er enginn annar en Óskarsverðlaunahafinn nýkrýndi Daniel Day-Lewis, en sagan um hann varð til eftir að það sást til hans borða hádegisverð með höfundi Star Wars, George Lucas og forstjóra Lucasfilm Kathleen Kennedy.

Enn er ekki vitað hvort að The Host leikkonan, Ronan, hafi landað hlutverkinu, en svo virðist sem annar hver leikari sé að leika í prufum fyrir myndina þessa dagana.

Ennfremur er óvíst hvaða hlutverk hún var prófuð í. Talið er að hlutverk kvenþorpara verði í myndinni, og hún hafi verið að leika í prufum fyrir það, en einnig vilja sumir meina að hún hafi verið að reyna sig í hlutverki Leiu prinsessu eða dóttur Han Solo.

Sagt er að Stapleton hafi lesið fyrir Jedi meistara, en enn minna er vitað um Day-Lewis, og óvíst hvort að hádegisverðurinn með Lucas og Kennedy þýði nokkuð í þessu samhengi.

Það eina sem er vitað með vissu um myndina á þessum tímapunkti er að J.J. Abrams leikstýrir henni eftir handriti Óskarsverðlaunahafans Michael Arndt, og að tökur hefjast í Pinewood myndverinu í London snemma á næsta ári.

Sagt er að við sögu í myndinni komi Logi geimgengill, Leia prinsessa og Han Solo á eldri árum, en George Lucas hefur sagt að hann hafi rætt við upphaflega aðalleikara myndaflokksins, þau Harrison Ford, Mark Hamill, Carrie Fisher, Billy Dee Williams og Anthony Daniels um að snúa aftur í Star Wars: Episode VII.

Myndin á að koma í bíó á árinu 2015.