Stallone berst með exi

Næsta mynd hasarkempunnar Sylvester Stallone er ekki The Expendables 2, sem lesendur síðunnar sem aðrir virðast ekki halda vatni yfir. Heldur er það hasarmyndin Bullet to the Head, sem á að koma út í apríl næstkomandi. Umtalsvert minna hefur heyrst af þeirri mynd, en fyrsta stillimyndin af Stallone á tökustað var að detta á netið. Sýnir hún kappan í hörðum axar-bardaga við öllu yngri hasarhetju, Jason Momoa (nýji Conan the Barbarian), sem mun leika skúrk myndarinnar.

Leikstjóri er Walter Hill, sem átti sína gullöld í leikstjórn hasarmynda á borð við 48 hrs. og er þetta hálfgerð endurkoma hans í leikstjórastólinn, en það síðasta markverða sem hann sendi frá sér var Undisputed með Wesley Snipes og Ving Rhames árið 2002. Stallone valdi hann persónulega eftir að lenda í „listrænum ágreiningi“ við fyrri leikstjóra myndarinnar, Wayne Kramer. Með önnur hlutverk fara Christian Slater, Jon Seda, Adewale Akinnuoye-Agbaje og Sung Kang (Han í Fast & Furious seríunni). Sá síðastnefndi leikur ungan lögreglumann frá New York sem fær leigumorðingjann Stallone með sér í lið við rannsókn mikilvægs máls sem leiðir þá til New Orleans. Tom Jane var upphaflega ráðinn í hlutverk lögreglumannsins, en var skipt út, þar sem að framleiðendur töldu vanta „meiri lit“ í aðalhlutverk myndarinnar.

Við höfum ekki mikið til að byggja á, en ef eitthvað er að marka þessa lýsingu gæti þetta orðið fínasta glæpamynd. En getur hún átt eitthvað í Expendables? Sjáum til í apríl. Hér er blessuð ljósmyndin: