Walt Disney Animation Studios er aftur orðið risi í teiknimyndaheiminum, þökk sé mynd sem var frumsýnd 90 árum eftir að Walt Disney gerði fyrstu teiknimyndina.
Á bloomberg.com er farið yfir velgengni nýjustu myndar fyrirtækisins, Frozen, en myndin hefur þénað 1,01 milljarð Bandaríkjadala í sýningum um allan heim frá því að hún var frumsýnd 22. nóvember sl. Myndin var frumsýnd í gær í Japan, sem er síðasti stóri markaðurinn sem myndin átti eftir að vera frumsýnd á.
Eins og segir í fréttinni þá gæti myndin orðið tekjuhæsta teiknimynd allra tíma og ýtt þar með Toy Story 3 úr toppsætinu.
Disney hefur verið að ná vopnum sínum nú á síðustu árum, sem byrjaði með frumsýningu Tangled, en á löngu tímabili þar á undan voru það fyrirtæki eins og Pixar Animation Studios sem nutu mestrar velgengni. Disney keypti Pixar árið 2006 og fékk í kjölfarið helstu yfirmenn þess fyrirtækis til að halda utan um sína eigin framleiðslu, með þessum stórgóða árangri.
Lag úr myndinni, Let it Go, eftir hjónin Robert Lopez og Kristen Anderson-Lopez vann Óskarsverðlaunin fyrir besta frumsamda lag í bíómynd nú á síðustu Óskarshátíð, en það var í fyrsta sinn sem Disney vann verðlaun fyrir besta lag í bíómynd síðan árið 2000, þegar Disney Animation vann verðlaunin fyrir lagið You´ll Be In My Heart úr teiknimyndinni Tarzan.