Spielberg vill Pratt sem Indiana Jones

Steven Spielberg er sagður ætla að leikstýra endurræsingu á Indiana Jones myndunum, og sagt er að hann vilji fá Guardians of the Galaxy leikarann Chris Pratt til að leika hinn ævintýragjarna fornleifafræðing Dr. Jones, sem Harrison Ford lék í fjórum myndum, eins og frægt er orðið.

chris prattt

Fyrr á þessu ári sagði Deadline frá því að leikstjórinn, sem valdi Pratt, sem er 35 ára, til að leika í fyrstu Jurassic Park myndinni sem gerð er í 14 ár, væri spenntur fyrir því að fá hann líka í hlutverk Dr. Jones.

Nú segir Deadline frá því eftir heimildum, að Spielberg, sem leikstýrði fyrstu fjórum myndunum í seríunni, sé að bíða eftir fullkláruðu handriti að endurræstri mynd.

Pratt hefur tjáð sig um sögusagnirnar og sagt að það yrði frábært tækifæri að fá að leika prófessorinn fræga.

Fyrsta Indiana Jones myndin, Raiders of the Lost Ark, var frumsýnd árið 1981 með Ford í aðalhlutverkinu.

Í kjölfarið fylgdu Indiana Jones and the Temple of Doom ( 1984 ) og Indiana Jones and the Last Crusade ( 1989 ).

Hálfgildings endurræsing á seríunni var gerð árið 2008 þegar myndin Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull var frumsýnd með Harrison Ford, Shia LeBeouf og Cate Blanchett í helstu hlutverkum.

Einnig hafa verið gerðar sjónvarpsseríur, tölvuleikir, teiknimyndablöð og bækur um persónuna, sem var upphaflega fundin upp af George Lucas. Árið 2003 var Jones útnefndur sem önnur mesta kvikmyndahetja sögunnar, af American Film Institute.

 

Stikk: