Source Code verður að sjónvarpsþáttum

Svo virðist sem sjónvarpsstöðin ABC ætli sér að gera sjónvarpsþætti innblásna af kvikmyndinni Source Code sem sló í gegn fyrr á þessu ári. Myndin sem er eftir Duncan Jones með Jake Gyllenhaal í aðalhlutverki fjallaði um tækni sem gerði mönnum kleift að endurráðstafa síðustu 8 mínútunum í lífi einhvers. Í myndinni var Gyllenhaal sendur aftur og aftur inn í lest sem varð fyrir hryðjuverkaárás fyrr um daginn, til þess að finna sökudólginn.

Þættirnir myndu fjalla um þrjá alríkislögreglumenn, sem í hverri viku væru sendir í líkama fólks sem lenti í einhverjum harmleikjum, til þess að leita vísbendinga um málið. Mark Gordon, framleiðandi myndarinnar og þátta líkt og Gray’s Anatomy mun framleiða þættina í samstarfi við ABC.

Þá stendur eftir spurningin, á Source Code eitthvað erindi á sjónvarpsskjái? Ég hefði litla þolinmæði fyrir þætti á borð við CSI: SCI FI, sem myndi bara snúast um sakamál vikunnar. Hinsvegar gætu þættirnir snúist að einhverju leiti litið á siðferðislegar hliðar Source Code tækninnar, en segja má að myndin hafi vakið upp fleiri spurningar en hún svaraði í þeim efnum. Þá þætti gæti ég nennt að sjá. Hvernig mynduð þið vilja sjá þessa þætti þróast, eða vill einhver sjá þá yfirleitt?