Sorg hjá ungu pari – Ný stikla úr Rimlum

Natan_JónssonNý stikla er komin út fyrir stuttmyndina Rimlar eftir Natan Jónsson, sem er bæði leikstjóri myndarinnar og handritshöfundur. Stefnt er að frumsýningu myndarinnar fyrir næstu jól.

Sagan segir frá ungu pari sem á von á sínu fyrsta barni. Því miður fer allt á versta veg í fæðingunni og eftir sitja þau með brostna drauma sína. Missirinn tekur mikið á sálarlífið hjá þeim og fer að halla undan fæti í sambandinu. Þau kljást við sorgina á mismunandi vegu og verður erfitt að sjá fram á það hvort þau geti unnið út úr þeim erfiðleikum sem þau eru í.

rimlar

Natan segir í samtali við kvikmyndir.is að handritið hafi hann skrifað síðastliðið haust, og tökur hafi síðan farið fram rétt fyrir jólin 2013.

Með aðalhlutverk fara þau Þórunn Guðlaugsdóttir og Aðalsteinn Oddson en þau eru bæði útskrifuð frá leiklistabraut Kvikmyndaskóla Íslands. Aukahlutverk eru í höndum Elvu Óskar Ólafsdóttur og Vanessu Terrazas, en Vanessa er einnig útskrifuð af leiklistarbraut Kvikmyndaskólans. Elvu Ósk ættu flestir að kannast við úr myndunum Hafið og Köld slóð og fleiri myndum og leikritum.

Sjálfur útskrifaðist Natan af leikstjórnar-og framleiðslubraut Kvikmyndaskólans árið 2012, en hefur síðan þá einbeitt sér að handritaskrifum og er einnig með leikrit í vinnslu sem verður sett upp á næsta ári.

Natan segir að Rimlar sé önnur stuttmynd af tveimur sem hann hefur skrifað og leikstýrt eftir útskrift. Hægt er að fylgjast með myndinni á facebook.

Kíktu á stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: