Sófaspíran velur úr bunkanum

Dagskrá helgarinnar var/er ofsalega veik núna um helgina og hallast sú lýsing meira að staðreynd heldur en matsatriði. Yfirleitt gengur Sófaspíran út á það að vekja athygli á því þegar góðar myndir eru sýndar í sjónvarpinu en eftir að hafa skimað ítarlega yfir dagskrána tókst undirrituðum að finna voðalega lítið.

Látum okkur nú sjá: My Best Friend’s Girl, Killers, Couples Retreat, The Jackal, Year One, Spy Kids 3… listinn er býsna ómerkilegur. Ég sá reyndar aldrei íslensku myndina Á annan veg, en það gæti verið sniðugt að tékka á henni á RÚV í kvöld. Fyrst þetta er frítt.

Til að nýta og fylla upp í plássið vil ég samt benda á nokkra titla sem ég hef verið að kynna mér nýverið á Blu-Ray.

The Avengers (2012)

Það er ekki af ástæðulausu að Kvikmyndir.is hefur verið að gefa slatta af Blu-Ray eintökum af þessari fyrirmyndar ofurhetjumynd, sem ég held að öruggt sé að kalla skemmtilegustu afþreyingarmynd ársins. Háskerpan fer alveg ótrúlega vel með hasarblaðahasarinn og það er ekkert leiðinlegra að Joss Whedon hafi ákveðið að skjóta hana í 1:85:1 forminu. Hún fyllir dásamlega upp í rammann á skjánum og er eiginlega nauðsynlegt að hækka í botn og poppa aðeins á undan. Það eru fáar 2012 myndir sem hafa eins sterkt replay-value og þessi að mínu mati. Mæli eindregið með aukaefninu á stálboxinu.

Redline (2009)

Ef Speed Racer var á sýru þá er Redline eins og Speed Racer ef hún er margfölduð með þremur. Þetta bandbrjálaða anime adrenalín-tripp var (að mér skilst) einhver sjö ár í framleiðslu og get ég varla sagt annað en að það sjáist. Myndin er grautþunn steypa sem tekur oft skrítnar ákvarðanir sem færustu sérfræðingar gætu ekki útskýrt (frekar en aðstandendur) en ég mæli klárlega með henni sem einfalt og tryllt fjör. Útlitið tryggir athygli manns og abstrakt teiknistíllinn stuðar yfirleitt lífi í hinar ómerkilegustu senur. Finnið hana.


Lethal Weapon 2 (1989)

Álit mitt á Sambíóunum hefur aukist gríðarlega eftir að leyfa nokkrum perlum frá 1987 að njóta sín í Kringlubíóinu. Og þá á gömlum printum! Ég er ’87 módel sjálfur og naut þess í botn á nostalgísku leveli að sjá The Brave Little Toaster aftur í bíósal og að geta upplifað Lethal Weapon 1 eins og faðir minn gerði. Ég hef reyndar örugglega horft svona tólf sinnum á Lethal-seríuna en eftir að hafa horft á nr. 1 aftur fór mig strax að langa til að setja nr. 2 aftur í tækið heima. Sú langbesta í seríunni segi ég.

 

Brief Encounter (1945)

Ef þú hefur ekki séð þessa mynd, þá langar mig bæði að skamma þig og öfunda þig. Ég varð samstundis ástfanginn af henni þegar ég sá hana fyrst og hef alltaf hugsað fallega til hennar síðan. Háskerpan styrkir áhorfið ótrúlega mikið og sér maður nánast í beinum smáatriðum hversu góðir leikararnir eru. Þessi og Great Expectations mynda dásamlegt double David-feature.

 

Harold & Maude (1971)

Ég sá þessa í fyrsta sinn tiltölulega nýlega og strax fór mér að finna augljóst hve sterkt hún hefur haft áhrif á Wes Anderson. Lengi hafði ég heyrt (reyndar mis)góða hluti um hana en ég digga hana í drasl. Hugguleg en samt eitthvað svo furðuleg. Leikararnir gera erfiðu hlutverkum sínum (og vægast sagt krefjandi kemistríu) frábær skil og húmorinn stendur mikið upp úr, alveg eins og Cat Stevens soundtrack-ið yndislega.

 

Notte Prima Degli Esami (2006)

Vissi fyrst ekkert hvað ég var að fara að setja í gang. Eina sem ég veit er að ég fíla (góðar) unglingamyndir og ég er algjör sökker fyrir ’80s tónlist. Ef það gæti átt við um þig einnig þá skaltu gjöra svo vel og leita uppi þessa drepfyndnu, ítölsku períódu-unglingamynd. Handritið er skemmtilegt, leikararnir góðir og húmorinn gjörsamlega „fattar“ unglinga, svona á svipuðu leveli og hvernig Órói skildi alveg unglinga nema þessi er létt og hress allan tímann. Ein af óvæntustu myndum sem ég hef séð síðustu árin. Látið framhaldið í friði.