Sófaspíran hefnir sín

Ný helgi, ný dagskrá, ný meðmæli. Ekki verður það flóknara. Lítið merkilegt að sjá í imbakassanum þessa helgina en þó tvær áhugaverðar og blendnar hvað dóma varðar. Engin skemmtilega slæm að þessu sinni, en þó eru tvær neðstu alveg stórmerkilegar þess í stað.


Before the Devil Knows You’re Dead (2007)

Síðasta kvikmynd goðsagnakennda leikstjórans Sidney Lumet (12 Angry Men, Dog Day Afternoon, Network) sem fékk mjög hlýja dóma og er troðin af mögnuðum leikurum á borð við Philip Seymour Hoffman, Ethan Hawke, Marisu Tormei, og Albert Finney. Nóg af ástæðum til að sjá hana, engar afsakanir til að sjá hana ekki.

Sýnd í kvöld á Skjá einum kl. 22:45

 

The Wolfman (2010)

Ekki alveg besta kvikmyndin þessa helgina en samt sem áður yndisleg að vissu leyti. Metnaðarfull en algjörlega geld þegar henni var skellt í framleiðslu. Draumahlutverk leikarans Benicio Del Toro og það sést, en hann hefur til liðs við sig aðra frábæra stórleikara á borð við Anthony Hopkins sem leikur hér eiginlega andlegt framhald af æðislegu rulluni sinni úr Dracula. Útfærslan er ekki upp á marga fiska en samt sem áður fínasta afþreying, og þónokkuð drungalegri en margir vilja viðurkenna.

Sýnd í kvöld á Stöð 2 kl. 22:20

Goldfinger (1964)

Eins og útgáfuárið gefur til kynna er þetta ekki kvikmynd byggð á svaðilförum Geira nokkurs Goldfinger heldur er þetta Bond-kvikmyndin sem flestir vilja meina að sé sú besta úr sígilda safninu. Ekki alveg sammála þar en samt sem áður er þetta eitursvalt og íkonískt Bond-ævintýri sem er erfitt að slíta sig frá. Skemmtileg illmenni, einfaldur söguþráður, og hún inniheldur eitt mest spennandi atriðið í allri seríunni.

Sýnd á morgun á Skjá einum kl. 16:10

Wizards (1977)

Það gæti verið erfitt að redda sér þessari ef þú finnur hana ekki á uppáhalds leigunni þinni, en hún er svo sannarlega áhugavert gláp. Ralph Bakshi er í miklu uppáhaldi hjá mér þó að myndirnar hans eru ákaflega ruglandi, misvandaðar, og óþarflega súrealískar. En það er hluti af fjörunu og Wizards, er engin undantekning. Ein af skemmtilegri sögunum hans og lokauppgjörið kemur gríðarlega á óvart hvort sem þér líkar það eða ekki. Sjálfur held ég mest upp á hina sárlega sjaldséðu Hey Good Lookin’ en Wizards er hinn fínasti staðgengill.

Pink Floyd’s The Wall (1982)

Súrealísk tónlistarmynd þar sem platan The Wall er notuð sem grunnurinn að sérkennilega söguþræðinum. Myrk, ógnvekjandi og hreint út sagt æðisleg. Kannski of súr fyrir suma og jafnvel mætti líkja henni við dýra stúdentamynd, en sem harður aðdáandi sveitarinnar mæli ég eindregið með henni. Tala nú ekki um ef þið fílið ‘öðruvísi’ teiknimyndir, enda nóg af sérkennilega teiknuðu myndmáli á boðstólnum. Æðisleg tónlist, æðislegt útlit, æðisleg upplifun.