Fyrir stuttu kom það í ljós að Steven Spielberg og Will Smith hefðu áhuga að gera bandaríska útgáfu af Oldboy, en síðan að þær fréttir bárust á milli áhugamanna hefur vægast sagt verið illa tekið í hugmyndina.
Þeir sem hafa séð myndina eru vel meðvitaðir um hversu truflandi og brútal áhorfið á henni er, og menn eru almennt ósannfærðir um að Spielberg nái sama andrúmslofti, enda „ó-amerísk“ mynd að öllu leyti. Einnig þykir Will Smith ólíklegur til að vekja sömu áhrif og Min-Sik Choi gerði í aðalhlutverkinu.
Í kringum 2006 ætlaði Justin Lin (The Fast and the Furious: Tokyo Drift) að endurgera myndina sjálfur og hafði m.a. sýnt áhuga að hafa Gary Oldman í aðalrullunni (sem hefði reyndar verið geðveikt!). Að lokum ákvað hann að hætta við verkefnið (guði sé lof) þar sem hann var ekki sannfærður um að hægt væri að toppa frummyndina.
Smith sagði þó nýlega í viðtali við FilmSchoolRejects.com að planið væri ekki að endurgera 2003-myndina, heldur er stefnan að gera mynd eftir samnefndri myndasöguseríu (sem er engu að síður talin nokkuð lík frummyndinni). Þetta gefur sjálfsagt í skyn að Spielberg og co. ætli sér að virða meistaraverkið sem Oldboy er, og gera eitthvað allt annað en að beinþýða kóreskuna.
Enn er ekki vitað hvenær bandaríska útgáfan af Oldboy komi út, en fyrir þá sem ekki hafa séð myndina, skoppist út á leigu á stundinni og tékkið á þeirri mynd!
(þess má til gamans geta að Oldboy er ein allra uppáhalds Þráins Halldórssonar, sem er einnig stjórnandi á síðunni)

