Eðlisfræðingar við Háskólann í Leicester hafa fundið út að skikkja Leðurblökumannsins er í raun slysagildra ef eðlisfræðilögmál eiga einnig að gilda í kvikmyndum. Fjögurra ára rannsókn mastersnema í skólanum komst að þeirri niðurstöðu að að lending Leðurblökumannsins eftir meðallangt svif úr háhýsum Gotham borgar jafngildir því að verða fyrir bíl á 80,47 kílómetra hraða á klukkustund.
,,Að þessu gefnu er ljóst að skikkja Leðublökumannsins er ekki öruggur ferðamáti“ segir í skýrslunni. Skýrslan gagnrýnir aðferð Leðurblökumannsins við að hægja á sér, en glöggir aðdáendur hafa eflaust tekið eftir því að oftar en ekki er nóg fyrir Blaka að sveifla skikkjunni fyrir framan sig til þess að hægja á sér og lenda heilu og höldnu. Eðlisfræðingarnir gefa lítið fyrir þessa aðferð og mæla frekar með notkun lítillar fallhlífar.
Í skýrslunni er þó tekið fram að ekki er tekið tillit til hvernig skikkjunnar er beitt með beygjum og hækkunum og lækkunum þegar Leðurblökumaðurinn svífur, en þó er tekið fram að hann þyrfti að hægja gríðarlega á sér á þann hátt til þess að geta lent heilu og höldnu.
Áhugasamir geta nálgast skýrsluna hér.