Kvikmyndin The Northman var frumsýnd í London í gærkvöldi að viðstöddu fjölmenni. Á meðal gesta var rithöfundurinn Sjón sem skrifar handrit myndarinnar ásamt leikstjóranum, Robert Eggers.
The Northman er söguleg mynd um víkingaprins og hversu langt hann er tilbúinn að ganga til að ná fram hefndum fyrir föður sinn sem var myrtur. Myndin gerist á Íslandi við upphaf 10. aldar.
Alexander Skarsgård, Anya Taylor-Joy, Willem Dafoe, Nicole Kidman og Ethan Hawke fara með aðalhlutverk ásamt Íslendingum á borð við Björk, Ingvar E. Sigurðsson og Hafþór Júlíus Björnsson.
Myndin verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi 14. apríl.
Já maður og Ó nei
Vefmiðilllinn Indiewire tók saman fyrstu viðbrögð við myndinni og segir kvikmyndagagnrýnandi vefjarins, David Ehlrich: „Allt sem þú þarft að vita um The Northman – 90 milljón dala víkinga-hefndarsögu eftir Robert Eggers – er að hvert einasta andartak hennar er eins og 90 milljón dala víkinga-hefndarsaga eftir Robert Eggers.“
Eggers á að baki rómaðar myndir eins og The Witch og The Lighthouse. The Northman er byggð á víkinga hefndarsögu, þeirri sömu og varð innblástur Shakespeare við skrifin á Hamlet.
Annar starfsmaður Indiewire, Kate Erband, sagði myndina hafa látið hana hrópa til skiptis „Já, maður (e. hell yes) og Ó nei (e. oh no).
Fellur í stafi
Fréttastjóri afþreyingarefnis hjá Unilad, Cameron Frew, kallar myndina „Ótrúlega“, og tístir, „Maður fellur í stafi, hvernig í andskotanum gerðu þau þetta? svona vel. Þessi magnaða snúna mynd á skilið að slá í gegn.“
Yfir ritstjóri Rolling Stone, David Frear, bar The Northman saman við málverk eftir Frank Frazetta. „Ég gef henni fimm krunkandi hrafna af fimm mögulegum.“
Fréttamaður kvikmyndaritsins Variety, Tomris Laffly, sagði að myndin væri með áhrifamiklar senur, og væri hryllileg á vegu sem hann gæti ekki enn trúað að fullu.
Kíktu á myndir frá frumsýningunni hér fyrir neðan og svo viðbrögð af Twitter þar fyrir neðan: