Fyrir um mánuði síðan sagði leikarinn Robert Downey Jr. að hann og leikstjórinn Guy Ritchie væru að skoða endurkomu í Sherlock Holmes seríuna mjög fljótlega.
Fyrri myndirnnar tvær, Sherlock Holmes og Sherlock Holmes: Game of Shadows, gengu vel og þénuðu um 500 milljónir Bandaríkjadala hvor mynd, en síðan hefur lítið heyrst af mögulegu framhaldi, fyrr en núna,
Framleiðandinn Joel Silver tjáði sig um þetta mál við Collider vefsíðuna á dögunum þegar hann var að kynna nýjustu mynd sína The Nice Guys og hafði þetta um málið að segja:
„Það lítur út fyrir að þetta gæti gerst nú í haust. Downey sagði að hann vildi gera þetta. Hann þarf að vinna að nýrri Avengers bíómynd strax eftir áramót, þannig að við erum að reyna að koma þessu í verk. Við erum með gott handrit. Jude [Law] er klár og Downey sömuleiðis, og við vonumst til að þetta verði að veruleika. Ef það gengur upp verður það frábært. Ef ekki, þá gerum við þetta síðar. En þetta lítur vel út núna.“