Serkis staðfestur í Apes 2

Rise of the Planet of the Apes var ein óvæntasta mynd sumarsins, en fyrir það höfðu fáir spáð því að myndin yrði góð, og enn færri að hún myndi slá í gegn hjá áhorfendum. Er horft er í baksýnisspegilinn eru þó nær allir sammála að hún hafi uppfyllt bæði þessi skilyrði. Það kemur því ekkert á óvart að 20th Century Fox hafi staðfest óbeint að framhald sé í vinnslu – en fréttir voru að berast að Andy Serkis hefði verið ráðinn til að endurtaka hlutverk sitt sem byltingarleiðtoginn Ceasar. Í upprunalega samningnum hans var ekki „framhaldsklausa“ eins og oft er, heldur þurfti að semja við hann upp á nýtt, og höfðu umboðsmenn umtalsvert vægi í þeim samningaviðræðum, og sagt er að hann hafi fengið „sjö tölustafa díl“. Ekki hefur verið staðfest hvort að James Franco, Frieda Pinto eða nokkur annar leikaranna muni snúa aftur, en Fox telja sig greinilega hafa nælt í mikilvægustu stjörnuna fyrst.

Samtímis bárust þær fréttir að stúdíóið hyggðist láta reyna á óskarsherferð fyrir frammistöðu Serkis í myndinni, sem margir telja með þeim bestu í ár. Það væri virkilegt nýmæli að sjá akademíuna fara að viðurkenna „motion-capture“ leik með tilnefningu – en það er að sjálfsögðu ekki tryggt. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer…

Leikstjórinn Rupert Wyatt er hinsvegar tryggður aftur, og sömuleiðis Rick Jaffa og Amanda Silver, handritshöfundar myndarinnar, en þau hafa lýst því yfir að þau sjái myndina fyrir sér sem fyrsta hlutann í þríleik. Ekki hefur verið sett útgáfudagsetning á framhaldið, það er enn í fyrstu stigum vinnslunnar. En leynast hér einhverjar góðar hugmyndir fyrir titil myndarinnar?