Segel í sannsögulegri sýrópsmynd

Matur verður í hávegum hafður í Hollywood næstu misserin. Ekki er langt síðan við sögðum frá því að mynd Seth Rogen um pulsur í stórmarkaði væri að fara í framleiðslu, og nú er það mynd um sýróp sem er að fara í gang.

jason segel

Gamanleikarinn Jason Segel mun leika aðalhlutverkið í mynd sem byggð er á sönnum atburðum, og fjallar um rán á kanadísku hlynsýrópi.

Myndin hefur ekki enn fengið nafn, en leikstjóri verður Seth Gordon, sá hinn sami og gerði Identity Thief og Horrible Bosses. Myndin fjallar um þjófagengi sem stal hlynsýrópi að andvirði meira en 20 milljónir Bandaríkjadala frá Sambandi hlynsýrópsframleiðenda í Quebec í Kanada árið 2012.  Meira en 20 manns hafa verið handteknir vegna ránsins.

Handrit skrifar handritshöfundur Family Guy, Chris Sheridan, og byggir skrif sín á umfjöllun blaðamannsins Anne Sutherland um málið, hjá dagblaðinu Montreal Gazette.

Myndin er sögð verða gamanmynd með dramatísku ívafi.

Hlutverk Segel er óvíst á þessari stundu.