Scorsese gerir Tyson með Foxx

Mike Tyson PortraitsÍ fyrra var sagt frá því að Jamie Foxx hefði ákveðið að leika hlutverk hnefaleikamannsins Mike Tyson í nýrri ævisögulegri mynd um kappann. Síðan þá hefur lítið heyrst af verkefninu en í útvarpsviðtali nú í vikunni í þættinum The Breakfast Club á útvarpsstöðinni Power 105´s, sagði Foxx að stórleikstjórinn Martin Scorcese myndi leikstýra myndinni:

„Ég fór með Mike Tyson til Paramount [kvikmyndaversins]. Ég mun leika í mynd um Mike Tyson. Að vera í sama herbergi og Tyson, tala um myndina, með Mike Tyson við hlið mér, og ég að leika hann á sama tíma. Og Martin Scorsese að leikstýra. Þetta verður fyrsta hnefaleikamyndin sem Scorsese gerir síðan hann gerði Raging Bull.“

Paramount hefur enn ekki staðfest fréttirnar, en ef svo fer þá myndi Scorsese þarna vinna á ný með handritshöfundinum Terence Winter, sem skrifaði Scorsese-myndina The Wolf of Wall Street.

Tyson sjálfur gaf í skyn í júlí í fyrra að Scorsese myndi leikstýra,  og að notuð yrði sama tækni og var notuð í The Curious Case of Benjamin Button, sem þýddi að Jamie Foxx gæti leikið Tyson frá því hann er að byrja í bransanum og fram til dagsins í dag.

jamieeTyson varð árið 1987 yngsti heimsmeistarinn í þungavigt í hnefaleikum, aðeins 20 ára að aldri. Hann varði titilinn níu sinnum eða þar til hann tapaði fyrir James „Buster“ Douglas árið 1990.

Boxarinn var sakfelldur fyrir nauðgun árið 1992 og dæmdur í sex ára fangelsi, en var sleppt út eftir þrjú ár.

Hann var áfram ríkjandi WBA og WBC heimsmeistari árið 1996 en missti WBC titilinn það ár og tapaði WBA beltinu til Evander Holyfield í bardaga í nóvember 1996.

Þeir mættust á ný í hringnum eins og frægt er orðið árið 1997 sem endaði með því að Tyson beit stykki úr eyra Holyfield.

Tyson vann 50 bardaga á ferlinum, og 44 með rothöggi. Hann tapaði einungis sex viðureignum.

Hér fyrir neðan er útvarpsviðtalið við Foxx. Spólið fram á mínútu 8.15 til að heyra ummæli Foxx.