Foxx snýr aftur sem Electro

Bandaríski leikarinn Jamie Foxx hefur verið ráðinn (aftur) í hlutverk skúrksins Electro og mun hann bregða fyrir í komandi Spider-Man framhaldsmynd. Fréttamiðillinn The Hollywood Reporter greindi fyrst frá þessu og hafa ófáir aðdáendur Köngulóarmannsins klórað sér í hausnum yfir þessum tíðindum.

Foxx lék áður Electro – við blendnar viðtökur – í kvikmyndinni The Amazing Spider-Man 2 þar sem Andrew Garfield fór með aðalhlutverkið. Foxx mun að þessu sinni tilheyra allt öðrum kvikmyndaheimi og mætir nú Tom Holland í þriðju sjálfstæðu Spider-Man myndinni þar sem hann gengur með grímuna. Myndin er þar af leiðandi framhald myndanna Spider-Man: Homecoming og Far From Home.

Foxx er þó ekki eini leikarinn sem flyst yfir í nýja heim Köngulóarmannsins, eins og aðdáendur tóku eftir í Far From Home þegar J.K. Simmons skaut upp kollinum í gestahlutverki sem J. Jonah Jameson.

Upphaflega stóð til að frumsýna nýju myndina í sumar á næsta ári en eftir að kórónaveiran skall á frestaðist frumsýning til nóvembermánaðar 2021. Fyrr á þessu ári var gefið upp að Ísland yrði einn af tökustöðum þessarar myndar og er búist við að illmennið Sergei Kravinoff verði í brennidepli, en hann er betur þekktur sem Kraven og er af rússneskum uppruna. Sergei er af aðals­ættum en fjöl­skylda hans flúði til Banda­ríkjanna eftir rúss­nesku vetrar­byltinguna 1917. Markmið Sergeis er að veiða Köngu­lóar­manninn og drepa, til að sanna að hann sé besti veiði­maður veraldar.

Jon Watts mun leikstýra þriðju mynd sinni um þessa ofurhetjuna. Að utanskildum Holland og Foxx hafa leiri leik­ar­ar ekki verið staðfest­ir en bú­ist er við því að þau Zendaya, Marisa Tomei, Tony Revolori og Jacob Batalon haldi áfram í hlutverkum sínum.