Saw hryllingsmyndaserían hefur nú komist í heimsmetabók Guinness og hlotið þar titilinn Best heppnaða hryllingsmyndasería allra tíma. Þetta tilkynnti framleiðandi myndanna, Mark Burg, í vikunni.
„Ég er enn í losti,“ sagði Burg við fréttastofuna Reuters. „Það að við séum búin að slá út frægar seríur eins og Friday the 13th, Nightmare on Elm Street, Halloween og Texas Chain Saw Massacre, er frábær viðurkenning fyrir okkur öll hjá Lionsgate sem stöndum að myndunum.
Serían samanstendur af sex myndum sem komið hafa út árlega, og alltaf á Halloween í Bandaríkjunum, frá árinu 2004. Sjöunda myndin, og sú síðasta í röðinni, kemur út þann 29. október nk. og verður í þrívídd.
Samanlagt hafa myndirnar þénað meira en 730 milljónir Bandaríkjadala í bíóhúsum um heim allan og meira en þrjátíu milljón DVD diskar hafa selst,að sögn dreifingaraðilans hjá Lionsgate.
Myndirnar fjalla allar um morðingja sem heitir Jigsaw sem lætur fórnarlömb sín ganga í gegnum hrollvekjandi aðstæður áður en hann drepur þau.
Burg sagði að framleiðendurnir hefðu ákveðið við gerð myndar númer tvö, að teygja seríuna upp í sjö myndir. Þessvegna verða ekki fleiri myndir eftir þá sjöundu, sem köllluð verður Saw 3D.
„Við erum búnir, nú er þetta búið,“ sagði hann. „við viljum ekki vera eins og hnefaleikamaðurinn sem fór einu sinni of oft í hringinn.“
„Í hverri mynd við skildum eftir spurningar sem átti eftir að svara og í þessari lokamynd svörum við öllum spurningum sem vaknað hafa.“
Afhending Guinness viðurkenningarinnar mun fór fram í gær föstudag á Comic Con hátíðinni í San Diego í Bandaríkjunum.