Samið um Modern Family 9 og 10

ABC sjónvarpsstöðin bandaríska hefur ákveðið að framleiða tvær þáttaraðir af sjónvarpsþáttunum vinsælu Modern Family til viðbótar, sem verða þær níundu og tíundu í röðinni. Líkt og seríur númer 7 og 8, þá munu þáttaraðirnar samanstanda af 22 þáttum hvor, að því er segir á vef People tímaritsins.

Þar með fara þættirnir yfir 200 þátta markið samtals, en 188 þættir hafa verið sýndir, nú þegar áttunda sería þáttanna klárast í næstu viku.

Samkvæmt People vefnum þá kemur þetta ekki á óvart. Í síðustu viku sagði meðhöfundur þáttanna, Steven Levitan, að hann væri mjög bjartsýnn á nýjan samning.  „Okkur hefur fylgt mikil blessun allt frá fyrsta degi með Modern Family, og það er frábært að fá tækifæri til að eyða tveimur árum til viðbótar með þessum persónum og hinum frábæru leikurum sem túlka þær,“ sagði Levitan í fréttatilkynningu.

„Það er enn svo mikið ósagt um líf þessara fjölskyldna,“ bætti hann við meðal annars.

Modern Family er vinsælasti þátturinn á ABC stöðinni. 8,8 milljón áhorfendur horfa á þættina, og einkunn er jafnan há. Auk þess hafa gagnrýnendur tekið þeim vel, sem sést best á fjölda Emmy tilnefninga og verðlauna í gegnum tíðina.

Með helstu hlutverk fara Ty Burrell, Eric Stonestreet og Julie Bowen, sem öll hafa unnið tvenn Emmy verðlaun fyrir leik sinn, en aðrir fullorðnir leikarar eru helstir þau Ed O’Neill, Sofia Vergara og Jesse Tyler Ferguson. Yngri stjörnur þáttanna eru Sarah Hyland, Ariel Winter, Nolan Gould, Rico Rodriguez, Aubrey Anderson-Emmons og Jeremy Maguire.