Aðdáendur leikkonunnar, og tvöfalda Óskarsverðlaunahafans, Sally Field, geta nú kæst því leikkonan hefur verið ráðin í hlutverk fyrrum forsetafrúar Bandaríkjanna, Mary Todd Lincoln, eiginkonu sjálfs Abrahams Lincolns, 16. forseta Bandaríkjanna, í myndinni Lincoln.
Tilkynning um þetta kom frá leikstjóra myndarinnar, Steven Spielberg, og Stacey Snider, varaformanni og forstjóra DreamWorks Studios.
Stórleikarinn og Óskarsverðlaunahafinn Daniel Day-Lewis leikur sjálfan forsetann.
„Ég er spenntur að vinna með Sally núna í fyrsta skipti,“ sagði Steven Spielberg. „Ég hef dáðst að myndunum hennar og hún hefur alltaf verið mitt fyrsta val til að túlka hina margbrotnu en viðkvæmu Mary Todd Lincoln.“
„Það gerist einfaldlega ekki betra en þetta – að fá tækifæri til að vinna með Spielberg og Lewis og leika eina margbrotnustu og litríkustu konu í sögu Bandaríkjanna,“ sagði Sally Field.
Myndin er byggð á metsölubókinni „Team of Rivals“, eftir Pulitzter Prize sigurvegarann Doris Kearns Goodwin, og handritið er skrifað af Pulitzer Prize sigurvegaranum, Tony verðlaunahafanum og Óskarstilnefningahafanum Tony Kushner. Framleiðendur eru Kathleen Kennedy og Steven Spielberg.
Tökur munu líklega hefjast næsta haust og frumsýning áætluð í lok árs 2012.