Rourke með hreim í Java Heat stiklu

Mickey Rourke átti eftirminnilega „endurkomu“ í bíómyndirnar þegar hann lék í myndinni The Wrestler eftir Darren Aronofsky, og var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir frammistöðu sína þar, auk þess sem hann vann Golden Globe verðlaunin auk fjölda annarra verðlauna.

Síðan þá hefur hann leikið í ýmsum misgóðum myndum en einnig í vinsælum stórmyndum eins og Iron Man 2 og The Expendables.

Nú er komin stikla fyrir nýjustu mynd hans Java Heat, en í henni fer Rourke með hlutverk illmennis, sem talar ensku með hreim.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan, plakatið þar fyrir neðan og söguþráðinn fyrir neðan plakatið:

Aðrir leikarar í myndinni eru m.a. Kellan Lutz, úr Twilight, og leikstjóri er Conor Allyn.

Myndin gerist í kjölfar sjálfsmorðssprenguárásar í Indónesíu, þar sem glannalegur Bandaríkjamaður, Jake Travers,  sem þykist vera námsmaður, er í hefndarför en uppgötvar fljótt að vandamál heimsins er ekki hægt að leysa eingöngu með ofbeldi.

Jake, sem er bandarískur sjóliðsforingi og alríkislögreglumaður, slæst í hóp með múslimskum lögreglumanni, Hashim, til að elta hættulegan alþjóðlegan skartgripaþjóf, Malik, sem rænir dóttur Soldánsins, Sultana, í því augnamiði að komast yfir konunglegar gersemar.

Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 18. apríl nk. en óvíst er með sýningar hér á landi.