Eftir að hafa dreymt um það í átta ár að fá að sjá Óskarsverðlaunakvikmyndina Rocky, frá árinu 1976, verða að söngleik, rættist draumur höfundarins, Sylvester Stallone, um síðastliðna helgi í Hamborg í Þýskalandi, en verkið var frumsýnt sunnudaginn 20. nóvember sl. í óperuhúsinu í Hamborg.
Það er skemmst frá því að segja að bæði gagnrýnendur og sjálfur Stallone, voru hæstánægðir með niðurstöðuna.
Hið virta þýska blað Spiegel Online sagði: „Það er erfið samkeppni í söngleikjaheiminum, en þessi hnefaleikasaga getur unnið,“ sagði í blaðinu og sagði í framhaldinu að uppfærslan hefði „unnið á stigum„. Annað þekkt blað, Bild, sagði „Rocky rotar Hamborg“ og blaðið The Hamburger Morgenpost kallaði stykkið „Sigur“.
Það er evrópska leikfélagið Stage Entertainment Company sem meðframleiðir leikritið ásamt sjálfum Sylvester Stallone og rússnesku hnefaleikameisturunum Vitali og Wladimir Klitschko.
Þó að sýningin sé flutt á þýsku þá var söngleikurinn upprunalega skrifaður á ensku af hópi sem að mestu leyti er bandarískur, þar á meðal leikstjóranum Alex Timbers, textahöfundinum Thomas Meehan, lagahöfundunum Lynn Ahrens og Stephen Flaherty og leikaranum Drew Sarich sem leikur titilhlutverkið, Rocky Balboa. Wietske van Tongeren, hollensk leikkona, leikur Adrian, afgreiðslustúlku í gæludýrabúð sem bræðir hjarta Rocky.
Sjáið stiklu úr Rocky 3 hérna:
Framleiðendur hafa lagt aðaláherslu á ástarsöguna í stykkinu en opinbert heiti söngleiksins er: „Rocky, Das Musical: Fight from the Heart.“ Í Þýskalandi er meirihluti leikhúsgesta konur, og eins og segir í frétt artinfo.com vefsíðunnar, þá lögðu framleiðendur áherslu á rómantíkina í sögunni. Lagahöfundarnir Ahrens og Flaherty skrifuðu nokkur rómantísk lög fyrir sýninguna, en þrátt fyrir það þá hrifust gagnrýnendur mest af slagsmálaatriðum sýningarinnar sem ná hámarki í flutningi laganna „Gonna Fly Now“ og „Eye of the Tiger„, en þau lög eru úr Rocky myndunum.
Miðað við viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda þá má allt eins eiga von á því að verkið sigli yfir hafið og fari á fjalirnar á Broadway í New York fyrr en síðar, þó engin ákvörðun liggi fyrir um það ennþá.
Sjáðu allar Rocky myndirnar á fimm sekúndum: