Fyrsta plakatið úr Robocop er komið í loftið. Myndin er endurgerð samnefndrar spennumyndar sem kom út 1987 í leikstjórn Paul Verhoeven.
Leikstjóri nýju myndarinnar er José Padilha. Hún gerist árið 2028 þegar fyrirtækið OmniCorp er ráðandi afl í gerð vélmenna. Vélmenni fyrirtækisins eru að sigra í styrjöldum víðs vegar um heiminn. Núna vill fyrirtækið nota tæknina heima í Bandaríkjunum.
Þegar löggan Alex Murphy slasast lífshættulega í vinnunni notar OmniCorp tækni sína til að bjarga lífi hans. Hann snýr aftur út á götur Detroit-borgar með nýja og öfluga hæfileika.
Með stærstu hlutverk fara Joel Kinnaman, Abbie Cornish, Gary Oldman, Michael Keaton og Samuel L. Jackson. Myndin er væntanlega í bíó í febrúar á næsta ári.