Robert Downey Jr. hélt að Zach Galifianakis væri heimilislaus flækingur

Kvikmyndaleikarinn Robert Downey Jr. hélt að meðleikari hans í Due Date myndinni, sem verður frumsýnd um helgina í Bandaríkjunum, Zach Galifianakis, væri heimilislaus maður, þegar hann hitti hann fyrst og var næstum búinn að slá hann.

Downey Jr., sem er 45 ára, var svo undrandi á sóðalegu útliti Zachs að hann taldi að hann væri einhver klikkaður aðdáandi, og þekkti hann ekki þegar hann sagði að hann ætlaði að fara að leika með honum í gamanmyndinni Due Date.

Susan, eiginkona Downey Jr. sagði á rauða dreglinum á Evrópufrumsýningu myndarinnar í gær í London: „Þetta var á Main Street, á ströndinni í Feneyjum, að hann kemur til okkar. Vandamálið með Robert er að hann er svo ómannglöggur, en ég aftur á móti þekkti hann, og hugsa strax, þetta á ekki eftir að enda vel. Hann kemur til okkar og segir, „Við ætlum að fara að gera mynd saman,“ og Robert gerði sig líklegan til að láta hann finna til tevatnsins ef á þyrfti að halda.“

Robert bætti við: „Hann leit út fyrir að hafa sofið um nóttina í pappakassa einhversstaðar á ströndinni.

Zach, sem sló í gegn í myndinni The Hangover, viðurkenndi að hann hafi kannski ekki litið sem best út þegar hann hitti Robert þarna, og viðurkennir að Iron Man stjarnan hafi verið í hálfgerðu áfalli að einhver flækingur segðist ætla að fara að leika með honum í bíómynd.
Zach sagði: „Já, því miður, ég kom upp að honum og miðað við það hvernig hann horfði á mig, þá var honum brugðið.“

Á Evrópufrumsýningunni í gær voru mætt auk þeirra Roberts og Zachs, leikstjórinn Todd Phillips og fyrrum eiginmaður Madonnu, leikstjórinn Guy Ritchie, en Robert, sem lék undir hans stjórn í Sherlock Holmes, fagnaði honum ákaft þegar hann mætti á dregilinn.