Robert De Niro á í viðræðum um að taka þátt í hinni stjörnum prýddu mynd New Year´s Eve, sem er framhald á myndinni Valentine´s Day, sem frumsýnd var í byrjun þessa árs.
Aðrir leikarar sem eru orðaðir við myndina eru þau Michelle Pfeiffer, Hilary Swank og Ashton Kutcher, en um er að ræða rómantíska gamanmynd.
Leikstjóri verður Garry Marshall, þekktur m.a. fyrir Pretty Woman. Myndin mun fjalla um ástarlíf hóps New York búa á gamlárskvöld.
De Niro er sagður eiga að leika bitran gamlan mann sem liggur fyrir dauðanum á spítala, á meðan Michelle Pfeiffer er orðuð við hlutverk óstöðugs einkaritara sem ákveður að ná stjórn á lífi sínu að því er The Hollywood Reporter vefmiðillinn greinir frá.
Ashton Kutcher, sem var einnig í Valentine´s Day, sem leikstýrt var af sama leikstjóra, á að leika mann sem þolir ekki gamlársdag.
Hilary Swank á að leika framleiðanda hins fræga árlega viðburðar á Times Square í New York á gamlárskvöld.
Mike Karz og Wayne Rice framleiða myndina fyrir New Line Cinema.
Glee stjarnan Lea Michele og Little Miss Sunshine stjarnan Abigail Breslin hafa þegar skrifað undir samning um að leika í myndinni.