Ný Jókermynd vill De Niro í stórt hlutverk

Framleiðendur nýrrar kvikmyndar sem segja mun forsögu Jókersins, erkióvinar Leðurblökumannsins, og verður að öllum líkindum með Óskarsverðlaunaleikarann Joaquin Phoenix í hlutverki Jókersins, vilja fá annan Óskarsverðlaunahafa, Robert De Niro, í stórt hlutverk í kvikmyndinni.

The Hashtag Show er með heimildir fyrir þessu, og öðru er viðkemur myndinni.

Hangover leikstjórinn Todd Philips, mun leikstýra myndinni, og Martin Scorcese er sagður verða á meðal framleiðenda.

Talið er að í kvikmyndinni verði sögð sagan af því hvernig Jókerinn varð til, en hann var í upphafi misheppnaður uppistandari, sem varð síðar geðtruflaður trúður og prins undirheima Gothamborgar. Myndin er sögð verða eins konar hliðarmynd úr DC comics heiminum, í flokki mynda sem kallaðar eru DC Dark.

Myndin mun ekki tengjast Suicide Squad hliðarmyndinni um Jókerinn þar sem Jared Leto fer með hlutverkið.

Ef De Niro fellst á að leika í myndinni, mun hann að talið er, koma til með að leika hlutverk Murray Franklin.

The HashtagShow er með ýmsar fleiri upplýsingar um persónur í kvikmyndinni eins og um Penny, en það er aukapersóna á aldrinum 60 – 74 ára. Aðlaðandi á yngri árum og finnst hún það enn. Heilsu hennar hefur þó hrakað.

Sophie Dumond er aukahlutverk, en hún er 27 – 34 ára, afrísk-amerísk eða Suður Amerísk. Hún er ekki falleg, hörkuleg, einstæð móðir sem býr á Lower East Side í New York. Reynir að láta enda ná saman.

Randall, hvítur, 40-59 ára. Telur sig alltaf vita best.

Gary er dvergvaxinn á aldrinum 30 – 49 ára.

Hoyt Vaughn, aukapersóna á aldrinum 50-69 ára af hvaða uppruna sem er. Hótelstjóri af gamla skólanum.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Garrity, 50-59 ára, en starfið hefur tekið sinn toll af honum.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Burke er 30 – 39 ára, og félagi Garrity. Er stjórnsamur og nýtur þess að nota völd sín.

Tökur kvikmyndarinnar eiga að hefjast í september nk. Talið er að fréttir af frekari ráðningum leikara berist á næstu dögum.