Risaeðlutryllirinn Jurassic World Dominion sem frumsýnd var fyrir helgi hér á landi og víða um heim stefnir í tekjur samtals upp á 386 milljónir Bandaríkjadala af sýningum á heimsvísu þessa helgina, eða rúmlega 51 milljarð íslenskra króna. Frá þessu er sagt á Deadline.com. Það er því ljóst að myndin er að fá rífandi góðar viðtökur um allan heim.
Kostnaðurinn við gerð myndarinnar var 185 milljónir dala.
Í myndinni koma saman á ný, stjörnurnar úr upprunalegu Jurassic Park myndinni frá árinu 1993, þau Sam Neill, Laura Dern og Jeff Goldblum. Jurassic World Dominion er sjötta myndin í seríunni.
Sonurinn prumpaði í bíó
Í samtali við The New York Times er þríeykið spurt hvenær það sá síðast upprunalegu myndina.
Sam Neill svarar fyrstur og segist hafa síðast horft á hana í heild sinni við hliðina á Díönu prinsessu í kvikmyndahúsi í Leicester Square í Lundúnum þegar myndin var frumsýnd í borginni.
„Hinum megin við mig var Tim, ellefu ára gamall sonur minn, og hann var gjörsamlega heillaður af því sem hann sá. En þegar T-Rex sést fyrst á hvíta tjaldinu byrjar Tim að reka við. Og lyktin barst til kóngafólksins! Ég eyddi öllum tímanum meðan myndin var í gangi í svitakófi, hugsandi „Díana prinsessa þarf að sitja undir prumpulykt frá litlum dreng, en hún mun örugglega halda að þetta hafi verið ég. Mér verður kennt um glæpi sonar míns, og ég held að hún muni ekki yrða á mig í lok myndar.“
En hún var vel upp alin og minntist ekki á neitt.
Kennir stráknum um
Jeff Goldblum segist í samtalinu þekkja þessa sögu vel enda hafi hann heyrt Sam segja hana áður. „Það er magnað að hann sé ennþá að kenna stráknum um.“
Laura Dern segist ekki hafa horft aftur á myndina alla fyrr en fyrst þremur dögum áður en hún byrjaði að leika í nýju myndinni. „Ég horfði á hana með dóttur minni og það var frábært að sjá hana í gegnum hennar upplifun – það er ekkert úrelt við það.“
Colin Trevorrow leikstýrir myndinni. Neill fer með hlutverk Alan Grant, Dern fer með hlutverk Ellie Sattler og Goldblum er hinn mjúkmáli stærðfræðingur Ian Malcolm. Mótleikarar þeirra eru risaeðlur sem nú eru hrikalegri en nokkru sinni fyrr.
Þá fara þau Chris Pratt og Bryce Dallas Howard með hlutverk, en þau hafa verið í aðalhlutverki í seríunni síðan í Jurassic World frá árinu 2015.
Rætt er við Lauru Dern á Sky News og þar segir hún að Ellie Sattler hafi átt sitthvað óklárað. Því hafi Dern verið meira en til í að mæta aftur til leiks í hlutverkinu. Hún segist í samtalinu oft hafa hugsað sér á síðustu þrjátíu árum hvað Sattler gæti eiginlega verið að bralla.
Innblástur fyrir ungar konur
Dern segir það hafi verið algjöran lúxus að hafa síðustu 20 ár getað verið ungum konum sem hafa áhuga á vísindum innblástur, allt útaf persónunni Ellie Sattler.
Dern segir að það hefði ekki verið nein vitglóra í að endurvekja Ellie Sattler í nýju myndinni nema hún hefði eitthvað nýtt fram að færa. Hún segir að sem betur fer hafi leikstjórinn, Colin, verið mjög hrifinn af hugmyndinni um að Sattler láti sig nú loftslagsmál miklu varða.