Risa vísindatryllir frá Kína til Netflix

Streymisveitan bandaríska Netflix er sífellt á höttunum eftir góðu efni fyrir sína 150 milljón áskrifendur um allan heim, og nýjasta viðbótin er kínverski vísindatryllirinn The Wandering Earth, sem nýlega var frumsýnd í Kína og í bíóhúsum í Bandaríkjunum og víðar, eins og segir á RapidTVnews.

Tekjur myndarinnar, sem var rándýr í framleiðslu, námu um 53 milljörðum íslenskra króna fyrstu 10 daga í sýningum í heimalandinu auk Bandaríkjanna, Ástralíu og Nýja Sjálands.

Leikstjóri og handritshöfundur er Frant Gwo, og byggir myndin á samnefndri skáldsögu eftir Liu Cixin, en hann var fyrsti höfundurinn frá Asíu til að vinna Hugo verðlaunin fyrir vísindaskáldsögu.

Helstu leikarar eru Qu Chuxiao, Li Guangjie, Ng Man-tat og Zhao Jinmai, auk Wu Jing.

Söguþráðurinn er í stuttu máli þessi: Sólin er að brenna upp og deyja, og fólk um allan heim byggir gríðarstóran hreyfil sem á að færa Jörðina út af sporbaug um Sólu, og yfir í nýtt sólkerfi, sem er 4,5 ljósár í burtu. En þessi ferð, sem á að taka um 2.500 ár, er ekki með öllu hættulaus. .

Tæknivinna við myndina tók heil tvö ár eftir að tökum lauk.

Jerry Zhang innkaupastjóri Netflix segir að fyrirtækið telji að áhorfendur um víða veröld muni njóta The Wandering Earth.

Leikstjórinn Frant Gwo segir: „Áhorfendur í meira en 190 löndum munu brátt fá að berja The Wandering Earth augum á Netflix. Ég er ánægður með að myndin okkar fái að koma fyrir augu svo margra. Myndin var gerð fyrir kínverska áhorfendur um allan heim, og hefur fengið góðar viðtökur, en það kom mér ánægjulega á óvart að myndin skyldi höfða til fólks utan meginlandsins í Kína.“

Netflix mun þýða myndina á 28 tungumál.