Raunveruleikaþáttur leitar að Transformersleikurum

Útlit er fyrir að Mark Wahlberg, aðalleikari næstu Transformers myndar, Transformers 4, muni leika á móti kínverskum raunveruleikastjörnum í myndinni.

The Hollywood Reporter segir frá því á vefsíðu sinni að Paramount Pictures ætli að vera með raunveruleikasjónvarpsþátt í Kína til að finna kínverska leikara í Transformers 4. Þættirnir munu bera nafnið Transformers 4 Chinese Actor Television Search, og þeir sem munu dæma í þættinum verða fyrrum yfirmaður Academy of Motion Pictures Arts and Sciences, Sid Ganis, framleiðandinn Lorenzo DiBonaventura, Denise Chamian, sem er sérhæfð í að finna leikara í kvikmyndir, og markaðs- og dreifingarstjóri Paramount, Megan Colligan. Þessi fjögur munu velja fjóra kínverska leikara, tvo atvinnuleikara og tvo áhugaleikara, til að leika í myndinni, sem leikstýrt verður af Michael Bay.

Rétt eins og með Iron Man 3 og fleiri nýlegar myndir frá Hollywood þá gera framleiðendur sér vonir um góða aðsókn á myndirnar á hinum gríðarstóra Asíumarkaði og líkt og DiBonaventura segir sjálfur þá hlakka aðstandendur myndarinnar „til að laga sig meira og meira að væntingum Kínverja með því að færa kínverska menningu, hefðir og kínverskt hæfileikafólk inn í myndina.“

En spurningin er síðan hvort að þessir leikarar sem koma í gegnum raunveruleikaþáttinn muni auka aðsókn á myndina? Ekkert endilega. Fólk mun að öllum líkindum flykkjast hvort sem er á myndina til að sjá Autobottana og Decepticonana og allar tæknibrellurnar sem ávallt eru í aðalhlutverki í þessum myndum. Raunveruleikaþátturinn slær þó tvær flugur í einu höggi. Kínverjar fá skemmtilegan nýjan raunveruleikaþátt til að horfa á, sem eru vinsælustu þættirnir í kínversku sjónvarpi, og Transformers fær nýja og ferska leikara.

Stefnt er að frumsýningu myndarinnar 27. júní, 2014.