Stúdentaráð Háskóla Íslands stendur fyrir málþingi í tilefni frumsýningar íslensku kvikmyndarinnar Queen Raquela, sem verður haldið á morgun miðvikudag kl. 11:40 til 12:30. Á málþinginu verður flutt stutt erindi, brot sýnd úr myndinni og gefst áhorfendum tækifæri á að spyrja spurninga. Þau sem sitja fyrir svörum eru m.a. Ólafur Jóhannesson leikstjóri myndarinnar og Anna Jonna Ármannsdóttir, formaður félags transgenders fólks á Íslandi, Trans Ísland.
Málþingið verður haldið í Hringleikasalnum sem er beint fyrir neðan Háskólatorg, H-101. Að málþingi loknu verða seldir miðar á sérstaka forsýningu sem fer fram síðar um kvöldið á Háskólatorgi kl. 20:00.
Queen Raquela segir frá Raquela, stelpustrákur á Filippseyjum dreymir um að finna draumaprinsinn og komast burtu til Vesturlanda.
Queen Raquela hefur hlotið verðlaun og lof gagnrýnenda víðsvegar um heiminn. Nýlega hlaut myndin tvenn verðlaun á kvikmyndahátíð NewFest í New York þar sem dómnefnd valdi hana bestu alþjóðlegu kvikmyndina og sagði hana ,,hreinskilna, hvetjandi, fyndna, sorlega og vongóða, og slægi ekki eina feilnótu“. Einnig var myndin valin besta kvikmynd hátíðarinnar af dómnefnd sjónvarpsstöðvarinnar Showtime. Áður hampaði Queen Raquela hin eftirsóttu Teddy-verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Berlín.
Þau sem sita fyrir svörum og ræða um myndina eru:
1. Anna Jonna Ármannsdóttir, formaður félagsins Trans Íslands, félags transgender fólks á Íslandi. Hún með BS próf í rafeindaverkfræði frá Álaborg og starfar nú hjá Reiknistofnun Háskóla Íslands. Anna Jonna hóf leiðréttingu á kyni árið 1991 sem lauk árið 2005, hóf samband við núverandi maka árið 1996 og er ógift. Anna Jonna hefur verið virk í félagslífi og réttindabaráttu transfólks í Danmörku og á Íslandi, með áherslu á lagalegan rétt, siðfræði, jafnrétti og kynjafræði.
2. Gunnar Theodór Eggertsson stýrir málþinginu en hann lauk BA-prófi frá HÍ í almennri bókmenntafræði með listfræði sem aukagrein og MA-prófi frá Háskólanum í Amsterdam í kvikmyndafræði. Gunnar hefur starfað við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda á Patreksfirði og skrifar reglulega kvikmyndapistla í Lesbók Morgunblaðsins. Hann stundar nú doktorsnám í bókmenntafræði með þungamiðjuáherslum á kvikmyndir.
3. Katrín Anna Guðmundsdóttir er stundakennari í kynjafræði ásamt því að stunda MA-nám í kynjafræði. Hún er meistaranemi í viðskipta- og
markaðsfræðum og rekur fyrirtækið Hugsaðu ehf. sem sér um ráðgjöf og námskeið í jafnréttismálum. Katrín Anna var auk þessa talskona
Femínistafélags Íslands frá stofnun þess árið 2003 fram til 2007. Hún skrifar mánaðarlega pistla í Viðskiptablaðið um jafnréttismál.
4. Ólafur Jóhannesson leikstjóri myndarinnar. Ólafur er tvöfaldur Eddu-verðlaunahafi og hefur hlotið víðsvegar verðlaun fyrir kvikmyndir sínar.
Queen Raquela verður frumsýnd fimmtudaginn 9. október í Sambíóunum Álfabakka og Kringlubíói. Nánar um Queen Raquela má finna á opinberri heimasíðu myndarinnar; http://www.queenraquelathemovie.com/

