Queen myndin verður gerð – tökur hefjast í september

Greint er frá því á opinberri heimasíðu bresku hljómsveitarinnar Queen, að nú sé myndin Bohemian Rhapsody loksins að fara í gang, en myndin mun fjalla um sögu hljómsveitarinnar og söngvara hennar Freddie Mercury, sem lést úr Eyðni árið 1991.

Á síðunni er staðfest að X-Men og The Usual Suspects leikstjórinn Bryan Singer muni leikstýra myndinni.

Mr. Robot leikarinn Rami Malek mun fara með hlutverk Freddie Mercury.

Upphaflega átti Sacha Baron Cohen að leika söngvarann, en upp úr viðræðum við hann slitnaði árið 2013.

Á heimasíðunni er lýst mikilli ánægju með valið á bæði Singer og Malik: „Getur einhver ímyndað sér leikara sem væri fullkomnari í hlutverkið en hann?“, segir á síðunni.

Bryan Singers segir í samtali við vefsíðuna: „Rami hefur svo sterka nálægð, og er búinn að samsama sig verkefninu. Hann er nú þegar búin að sökkva sér í Freddie, sem er frábært.“

Undirbúningur fyrir tökur myndarinnar hefjast í næstu viku í Bretlandi, og stefnt er á að hefja tökur um miðjan september nk.

Vefsíðan gefur ekkert uppi hverjir komi til með að leika hina liðsmenn Queen, þá Roger Taylor, Brian May og John Deacon.