Pulsupartý hjá Seth Rogen

Sony Pictures og fyrirtæki Megan Ellison,  Annapurna Pictures, munu framleiða nýja mynd eftir gamanleikarann Seth Rogen og Evan Goldberg, „Sausage Party“ eða Pulsupartý.

seth rogen

 

 

Leikstjóri verður Conrad Vernon sem gerði Monsters vs. Aliens, og Greg Tiernan. 

Pulsupartý á að vera „subbuleg“ teiknimynd um leit pulsu að sannleikanum um eigin tilveru. Eftir að hafa dottið út úr innkaupakerru, þá fer aðalpulsan og vinir hennar í hættulegt ferðalag í gegnum stórmarkaðinn til að komast aftur í ganginn sinn áður en útsalan hefst á þjóðhátíðardaginn, 4. júlí.

„Við erum himinlifandi yfir að vera aftur byrjuð að vinna með Seth og Evan,“ sagði forstjóri Columbia Pictures, Doug Belgrad í yfirlýsingu. „Þetta verkefni hefur þennan virðingarlausa, djúpa og djarfa bannaða húmor sem við búumst við frá þeim.“

Handrit myndarinnar skrifa þeir Rogen, Goldber og Hunter & Ariel Shaffir. Stefnt er að frumsýningu árið 2015.

Rogen og Goldberg sömdu og leikstýrðu myndinni This is the End, sem sló í gegn í sumar og þénaði 100 milljónir Bandaríkjadala í miðasölunni.