Nú rétt í þessu var að koma í hús nýtt plakat fyrir íslensku kvikmyndina Sveitabrúðkaup sem er ný kvikmynd Valdísar Óskarsdóttur. Valdís hefur unnið fjölda verðlauna fyrir klippingu á hinum ýmsu kvikmyndum, meðal annars Edduverðlaun og Baftaverðlaun. Myndin skartar mörgum af helstu leikurum landsins og má sjá heildarlista þeirra hér. Trailer myndarinnar er væntanlegur á næstu dögum og verður myndin svo að öllum líkindum frumsýnd 29. ágúst.
Mitt álit:
Mitt álit á plakötum undanfarið er að þau hafa sífellt farið batnandi. Þar má nefna sem dæmi plaköt á borð við Stóra planið, Duggholufólkið og Astrópíu. Með plakatinu við Sveitabrúðkaup er hinsvegar eins og verið sé að fara 13 ár aftur í tímann þegar plaköt eins og Einkalíf voru að koma. Ég ber samt mikla virðingu fyrir Valdísi og er mjög spenntur fyrir myndinni, enda hafa plaköt sjaldan endurspeglað gæði kvikmynda.


