Pirates of the Caribbean 6 komin í gang

Disney fyrirtækið er nú sagt vera með í undirbúningi sjöttu Pirates of the Caribbean myndina, en mynd númer 5, Pirates of the Caribbean: Dead Men Tell No Tales, var frumsýnd í fyrra.
Þó að sú mynd hafi ekki notið jafn mikillar velgengni og myndin þar á undan, On Stranger Tides frá árinu 2011, þá var hún samt sem áður mikill smellur um allan heim, og því er Disney í raun ekkert að vanbúnaði að halda áfram sínu striki. Eina sem menn velta nú vöngum yfir er hvort að aðalstjarnan, Johnny Depp, sé klár í nýja mynd, en misjafnar fréttir hafa borist af honum og hegðun hans síðustu misseri.

Það sem Geeks Worldwide hefur heyrt um sjöttu myndina, er að handritshöfundar Dead Men Tell No Tales, Ted Elliott, Terry Rossio og Jeff Nathanson, vinni nú að handriti myndarinnar. Þá er fastlega búist við að Joachim Ronning, sem var með-leikstjóri síðustu myndar, og vinnur nú að annarri Disney mynd, Maleficent 2, muni snúa aftur í leikstjórastólinn.

Johnny Depp hefur leikið aðahlutverkið í öllum fimm myndum í seríunni, sem Captain Jack Sparrow eða allt síðan Curse of the Black Pearl sló óvænt í gegn í miðasölunni um allan heim, árið 2003. Depp var auk þess tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir frammistöðu sína. Meðal þess sem komið gæti í veg fyrir þátttöku Depp í fleiri myndum eru til dæmis ásakanir um áreitni frá fyrrverandi eiginkonu hans Amber Heard, og fregnir af slagsmálum við meðlim tökuliðs í einni af nýjustu myndum leikarans.

Disney rak nýverið James Gunn úr stóli leikstjóra Guardians of the Galaxy Vol. 3 vegna gamalla og móðgandi tísta. Sú ákvörðun Disney reyndist óvinsæl, en kvikmyndaverið, hefur amk. enn ekki dregið uppsögnina til baka.

Með brottrekstri Gunn, þá gæti mörgum þótt það vera tvískinningur hjá fyrirtækinu að halda Depp.

Tekjur seríunnar til þessa nema alls 4,5 milljörðum bandaríkjadala, og ljóst að möguleg fjarvera Depp gæti höggvið stórt skarð í tekjumöguleika nýrrar myndar. Þar sem Joachim Ronning er bundinn yfir Maleficent 2 fram að frumsýningardegi, í maí 2020, þá er varla von á því að tökur á nýrri Pirates mynd geti hafist fyrr en þá.