Palicki bætist við herdeild G.I. Joe. The Rock og fleiri góðir eru með einnig

Leikkonan Adrianne Palicki er nýjasta viðbótin við leikarahóp G.I. Joe framhaldsmyndarinnar, sem enn hefur ekki fengið nafn. Frá þessu segir vefsíðan ComingSoon.net. Palicki mun leika meðlim í herdeild Joe, Lady Jaye.

Myndinni verður leikstýrt af John Chu, sem leikstýrði m.a. Step Up 3D og Justin Bieber smellinum Never Say Never. Í myndinni verður haldið áfram með veröldina sem var innblásin af leikföngum, í G.I. Joe: The Rise of Cobra, nema að leikaraliðið er allt annað, fyrir utan það að Channing Tatum snýr aftur sem Duke, Ray Park sem Snake Eyes og að öllum líkindum snýr Byung Hun-lee aftur sem Stormshadow.
Af nýliðum í leikaraliðinu má nefna Dwayne Johnson, einnig þekktur sem The Rock, sem Roadblock, Elodie Yung sem Jinx, DJ Cotrona sem Flint og RZA sem The Blind Master.

Palicki er best þekkt fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum Friday Night Lights og fyrir að hafa landað hlutverki í prufutökum fyrir Wonder Woman, sem var reyndar ekki tekinn lengra.
Persóna hennar í G.I. Joe er mikilvægur hluti af herliði Joe og er mikill njósnameistari.

Samkvæmt Deadline fréttasíðunni þá á eftir að ráða í hlutverk Joe Colton, sem er hinn upprunalegi G.I. Joe.
Nokkrir leikarar koma til greina í hlutverkið, og er talið að Bruce Willis sjálfur sé á óskalistanum.
Hér að neðan eru persónuspjöld Jay og Colton eins og þau birtast hjá YoJoe.com og í safni Corey Stinson.

G.I. Joe 2 fer í framleiðslu mjög fljótlega og stefnt er á frumsýningu næsta sumar.