Al Pacino man lítið eftir áttunda áratugnum. Leikarinn átti erfitt með að venjast frægðinni þegar hann var yngri og gerðist drykkjumaður.
„Ég átti í erfiðleikum með þessa miklu athygli. Ég var drykkjumaður. Ferillinn minn náði miklu flugi á áttunda áratugnum en því miður þá man ég mjög lítið eftir áttunda áratugnum. Þegar ég hugsa um það þá man ég ekki heldur mikið eftir níunda áratugnum,“ sagði Pacino í viðtali við The Sun.
„Ég drekk ekki lengur, tek eiturlyf eða neitt slíkt. Ég hef ekki gert það síðustu 30 ár.“
Hinn 75 ára Scarface-leikari segir hlutina hafa breyst til hins betra eftir að vinur hans, leiklistarkennarinn Charlie Laughton, ræddi við hann undir fjögur augu.
„Hann sagði við mig: „Al, ég er ekki að biðja þig um að hætta eða neitt slíkt en þú þarft að vera meðvitaður um að þú ert að drekka og nota dóp„,“ sagði leikarinn.
„Þetta varð til þess að um einu ári síðar ákvað ég að hætta þessu. Það bjargaði lífi mínu.“
Pacino sér ekki eftir því að hafa hafnað aðalhlutverkum í Die Hard og Star Wars. „Ég hugsa ekki einu sinni um það. Ég held að þetta snúist um heppni. Stundum nærðu hlutverkum, stundum ekki.“