Ótrúleg uppgötvun Snjómannsins ógurlega

Ný teiknimynd um snjómanninn ógurlega er væntanleg á hvíta tjaldið á næstu misserum, en sá sem talar fyrir skepnuna dularfullu er enginn annar en Magic Mike leikarinn Channing Tatum. Auk hans þá munu stórstjörnur eins og James Corden og Common ljá persónum myndarinnar rödd sína.

Fyrsta kitlan úr myndinni, sem heitir Smallfoot, er nú komin út, og óhætt er að segja að sagan taki óvæntan snúning mjög snemma í kitlunni, þegar öllu er snúið á hvolf og snjómaðurinn Migo, sem Tatum leikur, fer að segja sögur af kynnum sínum af áður óþekktri goðsagnakenndri dýrategund, manninum Percy, sem Corden leikur.

Uppgötvun Migo færir honum frægð og frama og draumastúlkuna, en um leið fer tilveran öll í hálfgerða óreiðu.

Aðrir helstu leikarar eru LeBron James, Gina Rodriguez og Danny DeVito, en Karey Kirkpatrick leikstýrir.

Teiknimyndin er væntanleg hingað til Íslands 28. september nk.

Kíktu á kitluna hér fyrir neðan: