Ósýnilegi maðurinn nær ekki í hælana á Sonic hérlendis

Bíómyndin um hraðskreiða broddgöltinn Sonic hefur reynst óstöðvandi á íslenska bíóaðsóknarlistanum undanfarnar þrjár vikur. Áhuginn á tölvuleikjapersónunni víðfrægu hefur hvergi dvínað en tæplega fjögur þúsund manns sáu myndina um helgina og er heildaraðsókn Sonic the Hedgehog skriðin yfir tuttugu þúsund manns samkvæmt upplýsingum frá FRÍSK.

Spennutryllirinn The Invisible Man náði að sigrast á vitleysingunum í Klovn og velta þeim úr öðru sætinu. Myndin átti stórfína aðsókn og þykir ekki ólíklegt að umtal myndarinnar haldi henni á listanum í einhvern tíma, enda umsagnir bæði gagnrýnenda og áhorfenda gífurlega jákvæðar.

Upp úr tvö þúsund Íslendingar sáu Ósýnilega manninn um helgina, og ber þess að geta að myndin kostaði ekki nema sjö milljónir Bandaríkjadollara í framleiðslu, en í heimalandi sínu sló myndin verulega í gegn. Tókst spennutryllinum að senda sjálfan Sonic niður um heilt sæti í aðsókn vestanhafs og vann upp framleiðslukostnað sinn á aðeins nokkrum dögum.

Um helgina var einnig frumsýnd gamanmyndin Downhill með Will Ferrell og Juliu Louis-Dreyfus í burðarhlutverkum. Myndin er byggð á sænsku kómedíunni Force Majeure, sem vakti mikla lukku á RIFF-kvikmyndahátíðinni árið 2014, en sambærileg velgengni virðist ekki gilda um bandarísku endurgerðina. Downhill rauk beint í sjöunda sæti aðsóknarlistans og sáu myndina um fimm hundruð manns. Myndin hefur heldur ekki skilað miklu í kassann í Bandaríkjunum.

Búast má við töluverðri hreyfingu á bíóaðsóknarlista næstkomandi helgar, en á meðal frumsýndra kvikmynda eru Pixar-myndin Onward og íslenska gamanmyndin Síðasta veiðiferðin.