Pixar teiknimyndin Inside Out virðist vera ósigrandi á verðlaunahátíðum þetta árið, en í gær var myndin valin besta myndin á Annie verðlaunahátíðinni, en Annie veitir verðlaun fyrir það sem best er gert í teiknimyndum.
Inside Out hafði áður verið valin besta teiknimyndin á bæði Golden Globe og PGA verðlaunahátíðunum. Auk þess að vera valin besta myndin þá fékk Inside Out níu önnur Annie verðlaun.
Tekjur af sýningum myndarinnar um heim allan nema nú alls 856,8 milljónum Bandaríkjadala, og myndin er nú orðin enn líklegri en áður til að hreppa Óskarsverðlaun þann 28. febrúar nk. fyrir bestu teiknimynd.
„Afsakið ef þið eruð orðin þreytt á að sjá okkur hérna uppi,“ sagði leikstjórinn Peter Docter þegar hann tók við verðlaununum.
Docter vann einnig Annie verðlaun fyrir handrit og leikstjórn myndarinnar, sem fjallar um tilfinningar 11 ára stúlku, hvað er í raun að gerast inni í líkamanum þegar hún sýnir tilfinninngar.
Myndirnar sem kepptu við Inside Out um bestu mynd voru Góða risaeðlan, Hrúturinn Hreinn, Smáfólkið og Anomalisa.
Hægt er að sjá lista yfir alla Annie vinningshafa með því að smella hér.