Önnur kvikmynd Valdísar í undirbúningi

Um þessar mundir stendur yfir undirbúningur fyrir kvikmyndina Kóngavegur 7 í leikstjórn
Valdísar Óskarsdóttur. Tökur hefjast í næsta mánuði.
Í fréttatilkynningu segir að Kóngavegur 7 gerist í hjólhýsahverfi og segi frá atburðum sem eiga sér stað þegar Júníor snýr aftur heim til Íslands eftir þriggja ára fjarveru erlendis. „Júnior kemur heim með ýmis vandræði í farteskinu og vonar að faðir hans geti bjargað því, en heimkoman reynist ekki vera alveg sú sem hann átti von á,“ segir í tilkynningunni.
Valdís er án efa einn fremsti klippari Íslendinga og hefur hlotið hin eftirsóttu
BAFTA-verðlaun fyrir klippinguna á kvikmyndinni Eternal Sunshine of the Spotless Mind.
Kóngavegur 7 er hennar önnur kvikmynd sem leikstjóri.
„Frumraun Valdísar, Sveitabrúðkaup hlaut einróma lof áhorfenda og gagnrýnenda. Myndin fékk fernar tilnefningar til Eddu-verðlauna á síðasta ári, m.a. fyrir bestu mynd og bestu klippingu,“ segir í tilkynningunni.
Kóngavegur 7 er framleidd af Árna Filippussyni, Davíð Óskari Ólafssyni og Hreini Beck, en
þeir framleiddu Sveitabrúðkaup.
,,Við erum spenntir fyrir því að vinna aftur með Valdísi eftir ánægjulegt samstarf
við gerð Sveitabrúðkaups.“ Segir Árni. ,,Kóngavegur 7 er mitt á milli að vera
gamanmynd og drama, og í raun má lýsa henni best sem háalvarlegri kómedíu
með létt djössuðu spennuívafi.“
Sveitabrúðkaup var sýnd á kvikmyndahátíðum um allan heim og var hún m.a. sýnd á
kvikmyndahátíðinni í Toranto og á kvikmyndahátíð Bresku kvikmyndastofnunarinnar (BFI) í Lundúnum. Viðtökur hátíðargesta voru afar góðar og var myndin sýnd margoft fyrir fullu húsi, að því er fram kemur í tilkynningu frá framleiðendum myndarinnar.

Framleiðendurnir þeir Árni, Davíð og Hreinn.