Obama vottar fjölskyldu Williams samúð sína

Good-Will-Hunting-robin-williams-33200332-1748-2659Barack Obama Bandaríkjaforseti vottaði fjölskyldu Robin Williams samúð sína í opinberu bréfi sem Hvíta húsið birti á vefsíðu sinni í dag. Í bréfinu segir Obama að Williams hafi verið einstakur maður sem að hafi komið okkur til að hlæja og gráta. Að lokum skrifaði Obama að Williams hafi gefið mikið frá sér til þeirra sem þurftu mest á því að halda.

Eins og flestum er kunnugt þá lést Robin Williams í gærdag. 63 ára að aldri. Lögreglan í Marin County sagði að hann hefði verið úrskurðaður látinn á heimili sínu stuttu eftir að lögreglan kom eftir neyðarsímtal, um hádegi að staðartíma.

Margar stjörnur úr Hollywood hafa brugðist við andláti Williams. Leikarinn Ben Stiller sagði við tímaritið Rolling Stone að hann hann hafi fyrst hitt Williams aðeins 13 ára gamall þegar faðir hans var með uppistand í Los Angeles og á þeim tíma hafi Williams verið í guðatölu hjá honum. Seinna meir léku þeir svo saman í gamanmyndinni Night at the Museum og á tökustað hafi Stiller sífellt hugsað með sér „Ég er að leika á móti Robin Williams, ég trúi þessu ekki“.

Leikkonan Meryl Streep kom í viðtal hjá USA Today í dag til þess að kynna myndina The Giver en viðtalið snérist þó fljótt um Williams og sagði Streep að hann hafi verið yndisleg sál og að hans yrði sárt saknað.

Framleiðslufyrirtækið Disney heiðraði svo minningu Williams með því að skrifa á vefsíðu sína „Þú ert frjáls núna“ ásamt því að birta mynd af lampanum úr Aladdin, en í þeirri mynd ljáði Williams andanum rödd sína.