Ein af síðustu myndum Williams

MV5BMjAxMTU5Mjk4OF5BMl5BanBnXkFtZTgwMTM4NDQ3MTE@._V1_SX640_SY720_The Angriest Man in Brooklyn verður frumsýnd hér á landi föstudaginn, 10 október. Myndin er ein af síðustu myndum hins ástæla og virta grínista og leikara, Robin Williams, sem eins og allir vita fyrirfór sér á heimili sínu þann 11. ágúst síðastliðinn.

Williams fer með hlutverk hins önuga og grautfúla Henry Altmann sem enginn man hvenær átti síðast góðan dag enda alltaf með allt á hornum sér. Afleiðingarnar eru þær að hjónaband hans er fyrir löngu farið í vaskinn, sambandið við ættingjana orðið meira en sundurryðgað og vinina sem hann á eftir er hægt að telja á einum fingri annarrar handar.

Dag einn á heimleið úr vinnu lendir Henry í árekstri og ákveður að koma við á læknastöð til að láta líta á sig. Þar er hann með eintóma stæla og leiðindi eins og venjulega og er svo óheppinn að sú sem skoðar hann, dr. Sharon Gill, er líka í vondu skapi vegna þess að kötturinn hennar datt út um gluggann fyrr um morguninn og dó. Samskiptum þeirra lýkur á því að Sharon segir Henry í bræði yfir framkomu hans að sennilega eigi hann ekki nema um 90 mínútur ólifaðar.

Með önnur helstu hlutverk í myndinni fara Mila Kunis, Peter Dinklage, Melissa Leo, Hamish Linklater og James Earl Jones. Phil Alden Robinson leikstýrir.

Myndin verður sýnd í Sambíóin Álfabakka, Egilshöll og Akureyri.