Mömmur gera uppreisn

Fyrsta ( bannaða/RedBand ) stiklan úr gamanmyndinni Bad Moms eða Slæmar mömmur, í lauslegri snörun, er komin út.

Mila Kunis leikur í myndinni mömmu sem er orðin útúrþreytt á allri vinnunni sem fylgir því að vera hin fullkomna móðir, en standa sig á sama tíma í fullri vinnu og í ræktinni.

Mælirinn verður síðan endanlega fullur þegar hún fer á fyrirlestur hjá persónu Christina Applegate, þar sem hún segir að mæður ættu að passa sig á hinu og þessu – að búa til mat sem er glúteinlaus, mjólkurlaus, saltlaus, osfrv. osfrv.

bad moms

Í stiklunni fær Kunis þær Kristen Bell og Kathryn Hahn með sér í lið til að fella hinar „fullkomnu mæður“, sem eru auk persónu Applegate, persóna Jada Pinkett Smith.  „Það eru svo fáránlega margar reglur,“ segir persóna Hahn.

„Við vinnum baki brotnu við að gera líf barnanna frábært og töfrandi,“ segir Kunis. „Líf þeirra er nú þegar ótrúlegt og töfrandi.“

Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 29. júlí nk. Enginn útgáfudagur er kominn fyrir myndina hér á landi.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: