Robin Williams látinn

robin williamsBandaríski gamanleikarinn Robin Williams fannst látinn í dag. Talið er að hann hafi fallið fyrir eigin hendi. Hann var 63 ára gamall þegar hann lést.

Lögreglan í Marin County sagði að hann hefði verið úrskurðaður látinn á heimili sínu stuttu eftir að lögreglan kom eftir neyðarsímtal, um hádegi að staðartíma.

Williams var frægur fyrir leik sinn í myndum eins og Good Morning Vietnam, Dead Poets Society og Good Will Hunting, en það hlutverk færði honum Óskarsverðlaun.

Hann hefur í gegnum tíðina talað opinskátt um baráttu sína við áfengi og eiturlyf.

Í frétt BBC segir að hann hafi nýlega farið í meðferð til að „fínstilla“ edrúmennsku sína, eins og the Los Angeles Times sagði frá í júlí sl.

Í yfirlýsingu frá eiginkonu leikarans, Susan Schneider, segist hún vera „algjörlega niðurbrotin“.

Williams lætur eftir sig þrjú börn af fyrri hjónaböndum.