Eftir skyndileg brottför leikstjórans Brian Synger frá stjórnvelli þriðju X-Men myndarinnar er búið að standa mikið vesen á bakvið áætlanir hennar. Synger vildi frekar taka að sér að leikstýra hinni margumtöluðu Superman endurgerð. Nýr leikstjóri hefur ekki enn verið staðfestur en rætt hefur verið um að Joss Whedon ætti möguleika á að taka við af Synger, en hann er einmitt þekktastur fyrir að skrifa og leikstýra Buffy the Vampire Slayer ásamt Angel þáttunum. Reyndar hefur hann (með-)skrifað fullt af kvikmyndum líka, jafnvel þ.á.m. Toy Story og Alien: Resurrection (talandi um fjölbreytni). Hins vegar eru heimildirnar um leikstjóravalið ekki 100% öruggar svo að ég þori ekki að ganga svo langt með að segja að hann sé endanlegi leikstjórinn.
Aftur á móti er búið að ráða handritshöfund fyrir X3, og er það Simon Kinberg. Nafnið er kannski ekki vel þekkt en þessi maður er einmitt mjög heitur þessa daganna og stendur hann bæði á bakvið kvikmyndinni um Elektru (persónunni úr Daredevil) ásamt Fantastic Four, sem er önnur ofurhetjumynd byggð á víðfrægum teiknimyndasögum. Kinberg segist vera gífurlegur aðdáandi X-Men blaðanna og einnig fyrri myndanna beggja og hann er búinn að lofa að sú þriðja og væntanlega síðasta verði sú albesta í röðinni. “it’s our RETURN OF THE KING“ segir hann m.a. í einu viðtalinu.
Hmmm… að bera X-Men saman við ROTK… Hljómar hálf langsótt en spennandi þrátt fyrir það.
Og MEIRA um X-Men heiminn þá er Fox búið að gefa grænt ljós á einstæða mynd um karakterinn Wolverine. Myndin verður undir skipulagningu svipað leyti og X3 og mun David Benioff (Troy) sjá um handritið.
Framleiðendur vilja auðvitað fá Hugh Jackman í báðar myndirnar, en ekkert hefur heyrst frá honum um hvort hann geri fleiri en bara þessa síðustu X-mynd.

