Nýtt, stjörnum prýtt upphaf fyrir Spider-Man

Spennumyndirnar um ofurhetjuna liðugu Spider-Man, eða Köngulóarmanninn, slógu heldur betur í gegn á sínum tíma í leikstjórn Sam Raimi, en eftir heldur dræmar viðtökur þriðju myndarinnar var ákveðið að breyta til. Svokallaðar ‘reboot’ myndir byrja sögunna aftur frá byrjun með nýjum leikurum og leikstjóra, líkt og Batman Begins gerði á sínum tíma. Síðan þá hefur ekki verið skortur á orðrómum varðandi leikarahópinn en hann er nú að mestu kominn á hreint.

Leikarinn sem tekur við hlutverki Peter Parker, Spider-Man, af Tobey Maguire er Andrew Garfield, en hann sást nú seinast í The Social Network. Emma Stone, úr Superbad, hreppti hlutverk Gwen Stacy, sem er ástin í lífi Peters, en ekki er búið að ráða leikkonu í hlutverk Mary Jane Watson, sem Kirsten Dunst fór með í fyrri myndunum. Rhys Ifans hefur verið ráðinn sem skúrkurinn í myndinni en ekki er komið á hreint hver sá skúrkur mun vera, á meðan Martin Sheen og Sally Field munu leika frændfólk Peters sem tekur hann að sér. Og nú herma nýjustu fregnir að grínistinn grimmi Denis Leary muni leika George Stacy, föður Gwen.

Tökur á þessari nýju byrjun Spider-Man hefjast núna í desember en myndin verður ekki frumsýnd fyrr en sumarið 2012, en hún er í leikstjórn Marc Webb.

– Bjarki Dagur