Nýtt í Star Wars: The Rise of Skywalker

Fyrsta kitlu-stiklan fyrir næstu Star Wars mynd, Star Wars: The Rise of Skywalker, kom út í gær, en í henni er að finna fullt af kræsilegum nýjum upplýsingum.

Ásamt því sem heiti myndarinnar hefur nú verið opinberað, þá fæst smá innsýn í það sem boðið verður upp á í Episode IX, sem, að því er leikstjórinn J.J. Abrams hefur sagt, gerist eftir atburðina í The Last Jedi.

Stiklan var frumsýnd á sérstakri Star Wars hátíð í Chicago í gær.

En hvað fleira er að finna í stiklunni?

Geislasverð Loga geimgengils var eyðilagt í The Last Jedi þegar Rey og Kylo Ren börðust um það.

„Geislasverðið lifir,“ sagði Daisy Ridley, sem leikur Rey í myndinni, á hátíðinni í Chicago.

Geislasverðið mundað

Kylo Ren tapaði geislasverði afa síns til Rey, en svo virðist sem að hann endurheimti hjálminn sinn, ef eitthvað er að marka stikluna. Hjálmurinn eyðilagðist á sínum tíma, en honum hefur nú verið tjaslað saman að því er virðist.

Hjálmurinn lifir.

Lando Calrissian, sem Billy Dee Williams leikur í Star Wars: The Rise of Skywalker, var eitt sinn eigandi geimskipsins The Millennium Falcon, en hann tapaði skipinu til Han Solo fyrir löngu síðan í spilum.

Miðað við stikluna þá virðist sem Calrissian muni á ný setjast bakvið stýrið á skipinu, líklega í fyrsta skipti síðan í Return of the Jedi.

Gaman í Millennium Falcon.

Höfuðsmaðurinn Leia Organa, eða Leia prinsessa, sem Carrie Fisher heitin leikur, birtist í þessari nýju mynd, en notaðar verða gamlar upptökur af henni úr tökum á The Force Awakens. Í stiklunni virðast þær eiga fallega og góða stund saman, hún og Rey.

Hamingja.

Nýtt og krúttlegt vélmenni mun birtast í myndinni, en lítið er um það vitað, nema að Abrams sagði að það héti D-O.

Vélmennin spjalla saman.

Þá fáum við að sjá Dauðastjörnuna í rúst.

Og þeir sem voru farnir að sakna Palpatine keisara, geta tekið gleði sína á ný því djöfullegur hlátur hans heyrist í lok stiklunnar, og undir hljómar rödd þularins sem segir: „Enginn hverfur í raun að eilífu.“

Og ef einhver efast enn um að keisarinn muni birtast, þá ætti sá hinn sami að geta sannfærst þar sem leikarinn Ian McDiarmid birtist á sviðinu í Chicago, en hann leikur Palpatine keisara.

Mörgu enn ósvarað

Mörgum spurningum er enn ósvarað um myndina þrátt fyrir þessar upplýsingar, og ein þeirra er til dæmis til hvaða Skywalker verið sé að vísa til í titli myndarinnar.

Myndin kemur í bíó á Íslandi 20. desember næstkomandi.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: