Vísindatryllirinn Blade Runner 2049 verður frumsýnd á föstudaginn næsta, þann 6. október, í Smárabíói, Laugarásbíói, Sambíóunum Egilshöll og Kringlunni og Borgarbíói, Akureyri.
Í Blade Runner 2049 er tekinn upp þráðurinn þrjátíu árum eftir að atburðum fyrstu myndarinnar lýkur. LAPD lögreglumaðurinn Officer K, svokallaður „blade runner“, kemst yfir leyndardómsfullar upplýsingar sem áttu fyrir löngu að vera gleymdar og grafnar, enda gætu þær steypt því sem eftir er af samfélaginu í glötun og valdið óeirðum. Uppgötvun K leiðir hann að máli fyrrum LAPD lögreglumannsins Rick Deckard, sem einnig var „blade runner“, en hans hefur verið leitað í þrjá áratugi.
Leikstjórn: Denis Villeneuve
Leikarar: Harrison Ford, Jared Leto, Ryan Gosling og Ana de Armas.
Áhugaverðir punktar til gamans:
-Leikstjóri myndarinnar, Denis Villeneuve, á m.a. að baki gæðamyndirnar Arrival, Sicario, Prisoners, Enemy og Incendies.
-Handritið er skrifað af Michael Green og Hampton Fancher, en sá síðarnefndi skrifaði einnig handrit fyrri myndarinnar sem byggð var á bókinni Do Androids Dream of Electric Sheep? eftir Philip K. Dick. Þess má geta að þeir Denis Villeneuve og Harrison Ford hafa báðir látið hafa eftir sér í viðtölum að handritið að Blade Runner 2049 sé besta handrit sem þeir hafi nokkurn tíma unnið eftir.
-Jared Leto leikur hinn ógnvekjandi Niander Wallace í Blade Runner 2049 en tæknin sem hann ræður yfir við gerð eftirlíkinga og hugmyndir hans um framtíðina gera hann að helstu ógninni sem að mannkyninu steðjar. Þess má geta að á netinu, t.d. á YouTube, er að finna sex mínútna mynd um Niander Wallace sem heitir Nexus Dawn og sýnir m.a.
hvert hann er kominn í tækninni árið 2036, þ.e. þrettán árum áður en Blade Runner 2049 gerist. Einnig viljum við
benda áhugasömum á roadto2049.bladerunnermovie.com þar sem það er útskýrt í heild hvað gerðist í Blade Runner-sögunni á milli áranna 2019 (gamla myndin) og 2049 (nýja myndin).
Sjáðu stiklu hér fyrir neðan og plakat þar fyrir neðan: