Af og til þá vekjum við athygli á kvikmyndagagnrýni sem skrifuð er hér á síðunni, bæði frá notendum og frá stjórnendum. Eins og sést hér að neðan í dálknum nýlegar umfjallanir, þá bætast reglulega við nýjar umfjallanir.
Sindri Snær Ingimundarson skrifar um myndina House of the Dead og er ekki hrifinn: „Mesta tímasóun í heimi. Já og ég vil nýta tækifærið og þakka Uwe Boll fyrir að drepa þessar 65 mínútur í lífi mínu,“ segir Sindri meðal annars, en aðrir sem skrifað hafa um myndina eru sammála Sindra og gefa ýmist eina eða tvær stjörnur. Sindri gefur enga stjörnu.
Tómas Valgeirsson aðalgagnrýnandi kvikmyndir.is hefur verið að dæla inn umfjöllunum að undanförnu, og þær nýjustu eru um myndirnar Jonah Hex, Frozen, og Little Fockers. Af þessum þremur fær Frozen hæstu einkunnina, eða átta stjörnur af tíu mögulegum, en Little Fockers fær 4 stjörnur af tíu og Jonah Hex, þrjár af tíu.
„Jonah Hex er þokkalega útlítandi en innihaldið er áberandi í tómu rugli. Myndin hraðspólar svo mikið yfir það sem skiptir máli (t.d. persónusköpun, baksögur o.fl.) að maður missir fljótt áhugann á öllu sem er að gerast, þar á meðal hasarnum – sem er ekki einu sinni vel kvikmyndaður. Hann er bara ruglingslegur og ónauðsynlega hávær,“ segir Tómas um Jonah Hex.
Um Frozen segir Tómas m.a.: „Myndin byrjaði vel en eftir smástund fór ég að spyrja sjálfan mig hversu mikið væri hægt að gera með einungis þremur persónum sem sitja fastar í skíðalyftu. Svarið reyndist vera: Ýmislegt! En ég vil helst ekki segja frá of miklu sem gerist.“
Um Little Fockers, sem er þriðja myndin um Fockers fjölskylduna kostulegu, segir Tómas: „Það er næstum því aðdáunarvert hvernig aðstandendur ætlast til að sömu brandararnir virki alltaf jafn vel. Flest allt sem gerði fyrstu myndina fyndna hefur verið notað aftur og aftur og aftur. Ég held að maður þyrfti að vera eitthvað langt á eftir í þroska til að hlæja svona oft yfir Focker-nafninu.“
Spurning hvort að nú sé komið nóg af „Focki“ ?
Að síðustu þá á Sæunn Gísladóttir nýjustu umfjöllunina á síðunni, eða frá því fyrr í dag um myndina, Almost Famous. „Það má líka taka fram að kvikmyndatakan er virkilega falleg, ameríska landslagið á morgnana og kvöldin yfir sumartíman er algjört augnakonfekt,“ segir Sæunn meðal annars um Almost Famous.