Nýjar ljósmyndir úr Brave

Hver bíður ekki spenntur eftir næsta þrekvirki Pixar-manna? Þó furðulegt framleiðsluferli bak við tjöld myndarinnar hefur vakið upp spurningar um gæðastjórn myndarinnar eru flestir ennþá staðfastir í að sjá myndina því Pixar er nú algjör gæðastympill. Yahoo birti nýjar ljósmyndir úr Brave ásamt smá upplýsingum um nýju stiklu myndarinnar sem er væntanleg á morgun.



Áferðin á hári og klæðnaði persónanna minnir mig örlítið á hönnunina úr How To Train Your Dragon sem DreamWorks gaf út á síðasta ári, en þó er alvarlegri blær yfir þessari tölvuteiknimynd ef dæma má frá því sem komið hefur fram um myndina. Meðal leikara eru Kelly Macdonald sem prinsessan Merida, Emma Thompson(jess!) sem Elinor drottning og Billy Connolly sem hinn einfætti konungur Fergus. Myndin gerist á miðöldum í Skotlandi og er aulgjóslega fantasíublær yfir myndinni eins og sést í ljósmyndinni af Meridu og bláa fyrirbærinu „whsip“.

Í nýju stiklu myndarinnar mun Fergus konungur segja söguna af ógurlega bjarndýrinu sem tókst að rífa af honum fótlegginn á meðan við sjáum hina uppreisnarlegu Meridu ferðast um hálendið og beita boga sínum.

Brave markar einnig tímamót fyrir Pixar þar sem aðalpersónan, Merida prinsessa, er fyrsta kvenhetja fyrirtækisins í aðalhlutverki og hefur Pixar lýst henni sem „and-prinsessu“. Þá vilja þeir meina að klæðaburðurinn og persónuleiki hennar er mjög ólíkur erkitýpunni sem fólk kannast við úr fjölskyldumyndum. Einnig mun kvikmyndin ekki einblína á kvenlegan styrk hennar heldur ólíkt samband Meridu og móður hennar. Þarf virkilega að segja mikið meira til að selja myndina þegar við vitum hverjir framleiða hana?