Þó að Titanic leikstjórinn James Cameron sé á bólakafi í gerð Avatar framhaldsmyndanna, þá nær hann að klára eitt og eitt verkefni annað samhliða. Til dæmis er hann framleiðandi að Alita: Battle Angel sem kemur í bíó í næstu viku, og er í forsýningum þessa helgina í íslenskum bíóhúsum. Þá er hann með puttana í sjöttu Terminator kvikmyndinni, sem von er á í bíó hér á Íslandi 1. nóvember nk.
Í Terminator 6 er öllu tjaldað til, og báðir aðalleikararnir úr gömlu myndunum, Arnold Schwarzenegger og Linda Hamilton mæta til leiks, en myndin verður beint framhald af Terminator 2: Judgement Day.
Í samtali við Yahoo! Movies ræddi Cameron Alita: Battle Angel, en uppljóstraði um leið nafninu á nýju Terminator kvikmyndinni, en það er: Terminator: Dark Fate, eða Gereyðandinn: Dimm örlög.
Þá ræddi hann samstarf sitt við Deadpool leikstjórann Tim Miller, sem leikstýrir Terminator 6.
„Tim er mjög þrjóskur og kreddufastur leikstjóri, og er með sínar eigin hugmyndir fyrir kvikmyndina,“ sagði Cameron, og bætti við að þeir væri að mörgu leyti ólíkir. „Ég sagði honum að ég myndi ekki taka þátt í gerð þessarar kvikmyndar ef Arnold [Schwarzenegger ] yrði ekki með. Aðdáendur myndanna vilja sjá [Linda Hamilton] aftur, og þeir vilja sjá alvöru Söruh Connor og vilja fá að vita hvaða áhrif tíminn og framtíðin, hafa haft á hana. Þetta hefur allt hert hana, og hún er orðin sterkari. Kannski ekki eins viðkunnaleg, en mun sterkari. Og þegar allt kemur til alls, þá verður hún mjög mikilvæg persóna í því að rétta kyndilinn áfram til nýrra persóna í sögunni. Þetta er mjög kvenlæg mynd, og ég er ánægður að Tim vann með þessi þemu.“
Arnold Schwarzenegger verður í myndinni í hlutverki vélmennisins T-800 og Linda Hamilton verður eins og fyrr sagði Sarah Connor. Aðrir sem leika í myndinni eru nýliðar eins og Mackenzie Davis úr Blade Runner 2049, Natalia Reyes, úr Lady, Diego Boneta, úr Pretty Little Liars, og Gabriel Luna úr Agents of S.H.I.E.L.D.